Salka Sól og Sjöfn fá afhenta gullbók fyrir Unu prjónabók

Vinkonurnar og nú metsöluhöfundarnir Salka Sól Eyfeld og Sjöfn Kristjánsdóttir fengu afhenta Gullbók fyrir mikla velgengni prjónabókarinnar Unu sem þær gáfu út í haust. Una prjónabók hefur nú selst í yfir fimm þúsund eintökum og hefur bókin verið tíður gestur á metsölulistum verslana frá því hún kom út í byrjun nóvember. Una prjónabók er samstarfsverkefni vinkvennanna Sjafnar, eiganda verslunarinnar og vefsíðunnar Stroff.is, og söngkonunnar Sölku Sólar. Sjöfn hefur prjónað allt sitt líf og hannað uppskriftir árum saman en Salka eingöngu prjónað í rúmt ár. Þrátt fyrir þennan reynslumun segja þær að samvinnan hafi gengið vel frá fyrsta degi og það sem átti upprunalega aðeins að verða ein flík, varð að heilli línu - sem varð svo að þessari metsölubók.

 

Bókin inniheldur prjónalínuna UNU sem stöllurnar unnu saman í fyrstu auk fjölda annarra uppskrifta sem henta börnum, fullorðnum og meira að segja hundum. Salka, verandi algjör byrjandi og Sjöfn margreynd í prjónaskap lögðu ríka áherslu á að uppskriftirnar væru á mannamáli, þ.e. auðlesnar þeim sem vita lítið sem ekkert um prjónaskap. Bókin er því einkar hentug fyrir grænjaxla í geiranum en reynsluboltar og handóðir prjónarar verða svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum.

 

Fyrsta upplag bókarinnar varð á þrotum í byrjun mánaðar en nýtt upplag er komið í verslanir um allt land. Áhugi á bókinni var slíkur að fyrir utan að vera til sölu í öllum bókabúðum sem og stórmörkuðum þá hefur bókinni verið dreift í ótalmargar hannyrðabúðir, bæði litlar og stórar á öllu landinu. Una prjónabók er því eflaust ein söluhæsta bók landsins, ef allar verslanir væru gjaldgengar á sölulista Félags íslenskra bókaútgefenda. Þetta verður því að teljast góður árangur þar sem þetta er frumraun höfundana á bókamarkaði. Það er Sögur útgáfa sem gefur Unu prjónabók út og færðu þau höfundunum, Sölku og Sjöfn, Gullbókina og gullslegna blómaskreytingu með.
 
Sjöfn og Salka Sól fá gullbókina fyrir Unu prjónabók
Sjöfn og Salka Sól fá gullbókina fyrir Unu prjónabók