Prjónfesta

Prjónfesta
Prjónfesta skiptir miklu máli þegar kemur að því að velja hvaða stærð þú ætlar að gera. Ég sjálf prjóna mjög þétt og er mín prjónfesta yfirleitt ekki sú sama og er gefin upp á garninu sem ég er að prjóna úr. Þetta á örugglega við um fleiri, þess vegna legg ég mikla áherslu á að mæla ykkar prjónfestu áður en þið byrjið.

Ef ég gef upp t.d. að peysa fyrir 1-2 ára sé 55 cm í yfirvídd þá er það lykkjufjöldi samkv. prjónfestunni á því garni sem gefið er upp í uppskrift sem gildir.

Margt getur haft áhrif á prjónfestu, t.d. tegund prjóna. Prjónar eru missleipir eða -stamir svo ég mæli með að nota sömu tegund af prjónum í sömu flíkina sem þýðir að nota tréprjóna í bæði bol og ermar en ekki bæði tré- og stálprjóna. Einnig fer það eftir garntegund hversu mikill munur verður á prjónfestu. Fínt garn getur gefið meiri mun en gróft garn.

Dæmi: Prjónfesta í uppskrift er 23 l = 10 cm. Þetta þýðir að 23 lykkjur eiga að vera 10 cm.

Ef þú gerir prufu og nærð bara 21 lykkju á 10 cm þá eru lykkjurnar þínar of stórar, sem gerir það að verkum að þú verður með stærri lykkjur í þeim lykkjufjölda sem gefinn er upp í uppskrift sem verður til þess að flíkin verður stærri en hún ætti að vera. Ef það munar tveimur lykkjum á 10 cm þá munar það alveg 20 lykkjum á 100 cm, sem gerir tæplega 10 cm mun, sem er slatti! Í þessu tilfelli legg ég til að þú minnkir prjónastærð um ½ nr. Ef þú gerir prufu og færð t.d. 25 lykkjur á 10 cm þá eru lykkjurnar þínar of litlar sem gerir það að verkum að þú verður með minni lykkjur í þeim lykkjufjölda sem gefinn er upp í uppskrift sem verður til þess að flíkin verður minni en hún ætti að vera. Í þessu tilfelli mæli ég með að þú stækkir prjónastærð um ½ nr. Þumalputtareglan er sú að tvær lykkjur til eða frá í prjónfestu eru ½ nr í prjónastærð, annaðhvort upp eða niður

Gerðu prjónfestuprufu áður en þú hefst handa.
Margir nenna alls ekki að eyða tíma í að gera prjónfestuprufu en gott er að hafa í huga að það þarf ekki mikið frávik í lykkjufjölda á prjónfestuprufu til að flíkin fái vitlaus hlutföll. Að prjóna heila flík sem passar svo ekki er alveg hrikalega fúlt. Finndu þá prjónastærð sem gefin er upp í uppskrift ásamt garninu sem þú ætlar að nota. Fitjaðu upp ca 30 lykkjur og prjónaðu slétt prjón, á réttu og röngu, alls 10 umferðir. Leggðu reglustiku ofan á stykkið og teldu lykkjurnar sem komast á 10 cm flöt.

Á myndinni sést að 21 lykkja gerir 10 cm í þessari prufu, með þessu ákveðna garni og á þessa prjónastærð. Örin sýnir að einn bogi er ein lykkja í garðaprjóni.

Grófleiki garns

Stundum finnur maður hina fullkomnu uppskrift en langar svo í annað garn en gefið er upp í uppskriftinni. Þá er mikilvægt að skoða prjónfestu á garninu sem mælt er með og því sem þig langar í. Til að lykkjufjöldi gangi upp í ummáli á peysu þarf prjónfestan að vera sú sama. Í þannig tilfellum þarf að gera prjónfestuprufu og fá þá rétta prjónfestu miðað við uppskrift til að stærðin á flíkinni verði rétt. Ef garnið er fínna/grófara en gefið er upp í uppskrift er líka hægt að reikna prjónfestu til að fá sama ummál og gefið er upp. Þá þarf að finna prjónfestuna og finna svo út hversu margar lykkjur þú þarft að hafa til að fá sama ummál og gefið er upp. Eftir það er svo hægt að velja sér stærð í uppskrift sem hefur þá sama lykkjufjölda og kemur upp eftir útreikning á því garni sem á að nota. Þetta er flókið ferli svo ég mæli frekar með því að finna garn í sama grófleika og gefið er upp í uppskrift.

Í þessari grein er að hluta til stuðst við texta frá Storkinum.
http://nytt.storkurinn.is/prufa/prjon-hekl/prjontaekni-adferdir/prjonfesta/

Hér er svo myndband frá Garnstudio sem sýnir hvernig á að gera prjónfestuprufu: https://www.garnstudio.com/video.php?id=108&lang=is