Hnútar í garndokkum!
TÖLUM AÐEINS UM HNÚTA!
Hnútur. Þetta orð, þegar talað er um prjónaskap, er nánast orðið að blótsyrði. Sumu fólki er alveg sama þó það rekist á stöku hnút í garninu sínu, á meðan aðrir flokka það sem stórslys. Þetta er hálfviðkvæmt málefni, en okkur fannst þetta vera mikilvægt málefni að fjalla um í þessari grein.
HNÚTAR ERU ÓUMFLÝJANLEGIR
Garn er í raun bara þráður sem slitnar stundum í vinnsluferlinu. Verksmiðjan er ekki að fara farga góðu garni vegna þess að þráður slitnaði. Í staðinn er þráðurinn bundinn saman og vinnsluferlið heldur áfram. Ekki án þess að rannsaka hvern einasta millimeter af þræðinum veit nokkur maður að dokka inniheldur hnút/a fyrr en prjónarinn rekst á hnútinn við prjónaskapinn. Þetta getur sumum fundist vera algjör kvöl og pína, sérstaklega í miðri umferð, en HÉR ERU GÓÐU FRÉTTIRNAR: hnúta má laga!
HVAÐ SKAL GERA VIÐ HNÚTA Í GARNINU OKKAR
Fyrsta skal ganga úr skugga um að þetta sé í raun hnútur. Stundum myndast smá flækja í þræðinum sem getur litið út eins og hnútur. Ef þú sérð engin samskeyti prófaðu þá að að strekkja aðeins á þræðinum og sennilega losnar um flækjuna. Ef þú varst hinsvegar að uppgötva alvöru hnút í upphafi umferðar þá er eftirleikurinn virkilega einfaldur. Það eina sem þarf að gera er að klippa hnútinn frá og sameina þræðina aftur rétt eins og þú værir að byrja á nýrri dokku. Hinsvegar ef þú uppgötvar hnút í miðri umferð er þetta það sem er best að gera:
-
„Split splice“: Þessi aðferð virkar aðeins með ull sem hefur EKKI verið „superwash“ meðhöndluð. Í meginatriðum er það sem þú ert að gera að þæfa endana tvo saman til að búa til jöfn samskeyti. Hér er hjálplegt myndband sem sýnir þessa aðferð.
-
„Magic Knot“: Hnúturinn er töfrum líkastur því hann muna aldrei losna.
Hér er myndband sem sýnir hvernig þú bindur þennan töfrahnút.
-
„Russian Join“: Þetta er ögn vandasamara verk, en niðurstaðan er algjörlega lýtalaus samskeyti.
Hér er myndband sem sýnir þessa aðferð.
- „Just knit it!“: Sumir prjóna bara hnútinn með í prjónlesið. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að mæla gegn þessari aðferð. Í fyrsta lagi geturðu ekki verið alveg viss um að hnúturinn losni ekki. Það er frekar líklegt að hnúturinn muni losna, sem leiðir af sér göt sem eru mun verri en hnútar. Einnig finna hnútar einhvernveginn alltaf leið til að vera sýnilegir. Gefðu þér tíma til að leysa úr hnútnum með einhverri af ofangreindum aðferðum, þú munt kunna að meta niðurstöðuna.
EN ÆTTU DOKKUR MEÐ HNÚTUM EKKI AÐ VERA Á NIÐURSETTU VERÐI?
Umræður um hnúta eru algengar á samfélagsmiðlum. Umræðurnar verða oft á tíðum ansi heitar, og sumir halda því fram að garnsöluaðilar ættu að lækka verð á dokkum sem innihalda hnúta. Við að lesa svona vangaveltur er óhjákvæmilegt að leiða ekki hugann að öllum klukkustundunum sem færu í að leita að hnútum. Verkið yrði þó sennilegast talið í dögum og vikum frekar en klukkustundum. Bætum kostnaðinum við þetta við grunnframleiðslukostnaðinn og við stöndum uppi með MJÖG dýrt garn. Ættu þá dokkur með hnútum að vera á afslætti? Svarið er nei, okkur finnst 1-3 hnútar í dokku vera ásættanlegt. Hnúta, eins og áður hefur komið fram, er virkilega auðvelt að lagfæra. Hinsvegar myndi það að henda garninu sem slitnaði í verksmiðjunni og byrja á nýjum þræði, eða að eyða miklum tíma í að rannsaka dokkur bara bæta við kostnaðinn og þannig hækka verðmiðann á garninu – í stað þess að lækka hann.
HVENÆR ERU HNÚTAR ÓÁSÆTTANLEGIR?
Við höfum lesið að það er viðmið í garnframleiðslubransanum að finnast þrír hnútar í 50 gramma dokku vera innan skekkjumarka. Það er sennilega ívið mikið. Langoftast eru engir hnútar í dokkum í okkar garni. Stundum finnast einn eða tveir, en afar sjaldan þrír. Finnir þú þrjá eða fleiri hnúta í dokku af garni frá okkur er alveg sjálfsagt að láta okkur vita af því. Við komum upplýsingunum áfram til framleiðandans sem getur þá skoðað sín megin hvort eitthvað hafi mátt betur fara.
FÖÐMUM HNÚTINN!
Mér persónulega finnst hnútar einfaldlega vera partur af prjónaskapnum. Hafandi innsýn í framleiðsluferlið á garni finnst mér það óraunhæft að ætlast til þess að garn sé laust við hnúta. Þræðir slitna. Það þýðir ekkert annað en að takast á við þá áskorun að vera fær um að eiga við hnúta. Það gefur mér ánægju að sjá að ég gat skeytt saman tveimur þráðum án þess að það sæust nein ummerki um það. Þetta er færni sem allir prjónarar ættu að tileinka sér, því hnútar eru og verða partur af raunveruleikanum í prjónaheimum. Mín lokaorð eru því: föðmum hnútinn, lítum á hann sem áskorun, og nýtum prjónahæfileikana okkar til þess að leysa úr hnútnum á árangursríkan hátt!
Þessi pistill birtist fyrst á ensku á síðunni skeinyarn.com, áhugasamir geta lesið frumtextann hér.
Textinn var þýddur og staðfærður af GKA þann 1. desember 2020.